pokercasinosports

Pókerhugtök og skilgreiningar

Action (sögn, að gera)

(1) Tækifærið til að gera. Ef spilari virðist ekki átta sig á því að það er komið að honum, gæti gjafarinn sagt „þú átt að gera“, eða „sögnin er hjá þér“. (2) Boð og hækkanir (e. bets & raises). „Ef þriðja hjartað lendir í borði og það er mikið að gerast geturðu gert ráð fyrir því að einhver hafi lent litnum sínum (e. flush)“.

Allt inn

Að verða uppiskroppa með spilapeninga þegar þú ert að bjóða eða jafna. Í leikjum með borðbitum (e. table stakes) má spilari ekki sækja meiri peninga í vasann á meðan hönd stendur yfir. Ef hann klárar peninginn í miðju kafi er útbúinn síðupottur/hliðarpottur (e. side pot) með þeim peningum sem hann á ekki tilkall til. Hann getur hins vegar enn unnið pottinn þar sem peningarnir hans voru. Dæmi: „Vesalings Óli. Hann var með fernu á móti stóru fullu húsi, en hann var með allt inn strax eftir annað boð.“

Ante (forfé)

Smáhluti af boði (e. bet) sem hver spilari þarf að leggja út í pottinn áður en hönd byrjar. Í flestum gerðum Hold'em-leikja er ekki notast við forfé; „blindfé“ (e. blinds) er frekar notað til að koma fyrstu peningunum út í pottinn.

Backdoor (Bakdyr)

Að ná bæði í fléttuspilið og fljótið (e. turn and river) til þess að ná að landa hönd sem var verið að fiska eftir (e. drawing hand). Segjum til dæmis að þú sért með A-7. Floppið kemur A-6-4. Þú leggur út boð og einhver jafnar. Fléttan er T, sem allir tékka/skoða og á fljótinu kemur svo gosi. Þú hefur náð sterkasta mögulega litnum „bakdyramegin“. Sjá einnig undir „runner“ (hlaup).

Bad Beat (Slæmt tap)

Þegar hönd sem fyrir fram er ólíklegur sigurvegari vinnur hönd sem er almennt talin sigurstranglegri. Það er yfirleitt notað til þess að gefa í skyn að sá sem vann hafi ekki átt neitt erindi í pottinn til að byrja með og að það hafi bara verið fyrir einhverja svínslega heppni að hann hafi náð að lenda eina spilinu í stokknum sem gat tryggt honum pottinn. Við ætlum ekkert að gefa nein dæmi hérna, þú átt eftir að heyra um þetta út um allt á pókerferlinum þínum.

Bet (boð)

Fyrstu spilapeningarnir sem eru settir í pottinn á einhverju stræti (e. street). Fyrir floppið (e. Pre-flop), myndi litli blindur teljast sem fyrsta boðið.

Big Blind (Stóri blindur)

Hærra blindféð af tveimur blindum sem almennt er notað í Hold'em-leik. Upphæð stóra blinds er yfirleitt jafnhá boðupphæðinni í fyrstu boðlotu (e. betting round). Sjá einnig undir „blind“ og „small-blind“.

Blank (Eyða, púðurskot)

Spil í borði sem virðist ekki hafa nein áhrif á stöðu handanna. Ef floppið er A-J-T, myndi fléttuspil eins og t.d. 2 vera kallað púðurskot.

Blind (Blindfé - blindir)

Skylduboð (eða hlutaboð) sem einn eða fleiri spilarar setja út áður en spil eru gefin. Almennt er blindféð sett út af þeim spilurum sem sitja strax á vinstri hönd við hnappinn (e. button). Sjá einnig undir „live blind“.

Bluff (Blöffa, blekking)

Að bjóða eða hækka með hönd sem þú telur vera veikari en þá sem mótspilarinn þinn er með, með það að markmiði að fá hann til að pakka sterkari höndinni.

Board (Borðið)

Öll sameignarspilin (e. community cards) í Hold'em-leik - floppið, fléttan og fljótið öll saman. Dæmi: „Það var ekki eitt einasta hjarta í borði.“

Bottom Pair (Lægsta par, botnpar)

Par sem notast við lægsta spil í floppinu. Ef þú ert með A-6 og floppið er K-T-6 þá floppaðir þú botnpari.

Burn (Brenna)

Að henda frá efsta spilinu úr stokknum, á grúfu. Þetta er gert eftir hverja einustu boðlotu, áður en næstu/næsta sameignarspil er/u sett í borðið. Þetta er til að tryggja að enginn hafi getað séð, eða þekki, næsta spil sem kemur í borð.

Button (Hnappur, takki)

Tákn/merki sem sýnir hver er (útnefndur) gjafari. Einnig notað til að vísa til spilarans sem „situr á takkanum“, eða við hnappinn. Dæmi: „Djöfull, takkinn hækkaði.“

Buy (Kaupa)

(1) Eins og í að „kaupa pottinn“. Að vera að blekkja og vonast þannig til að „kaupa“ pottinn án þess að einhver vilji jafna þig. (2) Eins og í að „kaupa hnappinn“. Að bjóða eða hækka, í þeim tilgangi að þú vonast til að spilararnir á milli þín og takkans pakki og þannig færð þú að vera síðastur að segja í boðlotunum (e. betting rounds) þar á eftir.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Call (Jafna, kalla, sjá)

Að setja í pottinn upphæð sem er jafnhá og upphæðin sem var síðast boðin eða hækkað um. Tiltækið að sjá, eða að jafna (eins og „ég sé þetta“) er notað í almennu máli um þetta.

Calling Station (Kallstöð)

Veikur, hlutlaus spilari sem kallar oft, en hækkar sjaldan eða pakkar (e. fold). Það er alltaf fínt að hafa svoleiðis spilara við borðið.

Cap (Þak)

Að setja inn síðustu leyfðu hækkunina í boðlotu (e. betting round). Þetta er yfirleitt þriðja eða fjórða hækkunin. Gjafarar í California-afbrigðinu kalla þetta oft „Capitola“ eða „Cappuccino“.

Case (Kassinn)

Síðasta spilið í stokknum af ákveðinni gerð. Dæmi: „Floppið kom J-8-3; Ég er með vasagosa á hendi og hann vasaáttur og á fljótinu (e. river) lendir kassaáttan og hann vinnur fulla húsið mitt.“

Center Pot (Miðjupottur)

Fyrsti potturinn sem myndast í pókerhönd, annað en einn eða fleiri „síðupottar/hliðarpottar“ sem myndast ef einn eða fleiri spilarar eru með allt inn. Líka kallað „aðalpottur“ (e. main pot).

Check (Skoða, tékka)

Að bjóða ekki, en geta svo jafnað eða hækkað síðar í boðlotunni. Tæknilega það sama og að bjóða 0 krónur í pottinn. (2) Annað orð yfir spilapening (e. poker chip).

Check-Raise (tékkhækkun/skoðhækka)

Að skoða og síðan hækka þegar spilari fyrir aftan þig hefur boðið. Það heyrist stundum sagt að þetta sé ósanngjarnt eða óheiðarleg spilamennska. Bull og væl. Eiginlega allir spilasalir leyfa spilurum að skoðhækka og það er mjög mikilvæg taktík í póker. Þetta er sérstaklega mikilvægt í Hold'em-leikjum með lágum takmörkum, þegar þú þarft að sýna styrk til að fækka mótspilurunum ef þú ert með bestu höndina.

Cold Call (kalla kalt, ísköld jöfnun)

Að kalla fleiri en eitt boð í einu. Gefum okkur, til dæmis, að fyrsti spilari eftir blinda hækkar. Þá þarf hver spilari sem á eftir að gera að kalla þessi tvo boð „kalt“. Þetta er aðeins öðruvísi en að kalla eitt boð fyrst og kalla svo aftur annað boð síðar.

Come Hand (Komuhönd)

Hönd sem þú þarft að draga í til að ná (líklega komið úr teningaspili).

Community Cards (Sameignarspil)

Spil sem eru sýnd upp í loft á miðju pókerborðinu og allir spilarar nota sameiginlega í leikjum eins og Hold'em og Omaha. Þessi spil eru líka kölluð borðspilin, eða bara „borðið“.

Complete Hand (Full hönd)

Hönd sem notast við öll fimm spilin til að mynda höndina - röð, litur, fullt hús eða litaröð.

Connector (Tengill)

Byrjunarhönd í Hold'em þar sem spilin tvö eru í númeraröð. Dæmi: KQ, 76.

Counterfeit (Falsað)

Þegar höndin þín verður verðminni af því að spil í borði hafa endurgert hana. Dæmi: þú ert með 8-7 og floppið kemur 9-T-J og þú þá með röð. Svo er fléttuspilið (e. turn) 8. Þarna er borðið þá búið að falsa höndina þína og hún næstum orðin verðlaus.

Crack (Brjóta, hrekja)

Að vinna hönd - yfirleitt mjög stóra hönd. Maður heyrir þetta oftast sagt um ásapar á hendi: „Í þriðja skiptið í kvöld sem einhver brýtur niður hjá mér vasaásana“.

Cripple (Fatla, bækla)

Eins og í „að hafa bæklað stokkinn“ eða „stokkurinn var í fatla“. Í merkingunni að þú sért með flest eða öll spilin sem einhver gæti viljað úr stokknum miðað við spilin í borðinu. Ef þú ert með kóngaparið á hendi og svo detta hinir tveir kóngarnir á floppinu, ert þú búinn að bækla stokkinn.

Dealer (Gjafari)

Sá spilari í pókerleik sem er að gefa (eða er fræðilega að gefa) spilin úr stokknum. Þegar atvinnugjafari (í spilavíti eða spilasal) eða sjálfvirkur gjafari (á netinu) er viðstaddur - þá er það nauðsynlegt að merkja við þann spilara sem ætti að vera gefa spilin, af því að blindir lenda vinstra megin við þann sem gefur og sögnin byrjar þar líka. Þetta er gert með því að nota tiltekið merki, kallað gjafarahnappur, sem svo færist réttsælis um borðið og færist á næsta spilara eftir að hverri hönd lýkur.

Dog (Hundur)

Stytting á „underdog“ eiginlega, sá sem er minni máttar.

Dominated Hand (Undirlægjuhönd)

Hönd sem mun eiginlega alltaf tapa fyrir sterkari höndum sem fólk spilar vanalega með. Til dæmis er K-3 „undirlægja“ handarinnar K-Q. Undantekningin er auðvitað undarleg flopp (t.d. 3-3-X, K-3-X), en almennt þá tapar hún alltaf fyrir KQ.

Draw Dead (Draga dautt, dauðyfli)

Að reyna að ná í hönd sem mundi samt ekki nægja til að vinna pottinn þó hún næðist. Ef þú ert að draga í litahöndina þína en andstæðingurinn er þegar með fullt hús ertu að „draga dauður“. Þetta er að sjálfsögðu ekki góð staða fyrir þig.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Equity (Hlutafé, eigið fé, fjárígildi)

„Réttmætur“ hlutur þinn í pottinum. Ef það eru $80 í pottinum og það eru 50% líkur á að þú vinnir pottinn, þá áttu $40 fjárígildi í pottinum. Þetta hugtak er frekar teygt þar sem þú kemur jú annað hvort yfirleitt til með að vinna $80 eða $0, en þetta gefur þér hugmynd um hversu mikið að jafnaði þú getur vænst að vinna.

Expectation (Væntingar)

Upphæðin sem þú getur vænst að vinna að meðaltali, ef þú gerir eitthvað ákveðið í stöðunni. Segjum til dæmis að þú setjir $10 út í $50 pott og ert að draga í hönd sem þú átt að hitta 25% skipta og að sú hönd vinni alltaf ef þú hittir hana. Í þrjú skipti af fjórum hittirðu ekki á það sem þú varst að bíða eftir að draga og tapar því $10 í hvert þessara skipta, eða $30 samtals. Í fjórða skiptið hittirðu á spilið/spilin og þá vinnurðu $50 Heildarhagnaðurinn þinn yfir þessar fjórar hendur að meðaltali er $50-$30 = $20, eða $5 að meðaltali á hverja þessara handa. Því gefur það, að kalla/jafna þessa $10, væntanlegan ávinning upp á $5. (2) Upphæðin sem þú væntir þess að vinna við pókerborðið yfir ákveðinn tíma. Segjum að á 100 spiluðum klst. vinnir þú $527. Þá væntir þú $5,27 á hverja klukkustund. Að sjálfsögðu þénarðu ekki nákvæmlega þá upphæð á hverri klst. (og sumar þeirra muntu tapa), en þetta er einn mælikvarði á væntanlegar tekjur.

Extra Blind (Aukalegur blindur, aukablindur)

Blindfé sett út af spilara sem var að koma inn í leikinn, eða var að koma aftur að borðinu, eða hefur skipt um sæti við borðið. Sjá einnig undir „blindir“ og „pósta“.

Family Pot (Fjölskyldupottur, vinapottur)

Pottur sem allir (eða næstum allir) spilararnir hafa jafnað áður en floppið kemur.

Fast (Hratt)

Eins og í að „spila hratt“. Að spila hönd stíft, eða sækið (e. aggressively) og bjóða og hækka eins mikið og hægt er. Dæmi: „Þegar þú floppar setti en það er mögulega hægt að draga lit þarftu að spila hana hratt“.

Favourite (Líklegastur, sennilegastur)

Pókerhönd sem er, samkvæmt líkum, sennilegasta höndin til þess að vinna.

Ferna

Fjögur eins.

Flop (Flopp)

Fyrstu þrjú sameignarspilin sem eru lögð samtímis í borð og snúa upp.

Fold (Pakka)

Að gefa frá sér allar líkur á að vinna pottinn sem er undir í póker þá stundina. Að leggja niður höndina, eða kasta henni, í stað þess að jafna eða hækka boð.

Foul (Villa, ógilt)

Hönd sem ekki má spila af einhverjum ástæðum. Spilari með ógilda hönd á ekkert tilkall í neinn hluta af potti sem er spilað um. Dæmi: „Hann var allt í einu kominn með þrjú spil eftir floppið, svo gjafarinn ógilti höndina hans.“

Free Card (Frítt spil, ókeypis spil)

Spil á fléttu eða fljóti þar sem þú þarft ekki að jafna boð áður en það kemur í borðið, vegna þess hvernig höndin hefur spilast áður (eða vegna orðsporsins sem þú hefur hjá meðspilurunum). Ef þú ert til dæmis á hnappnum og hækkar þegar þú getur dregið í lit (e. flush draw), gætu mótspilararnir valið að skoða (tékka á) þig á fléttunni (e. turn). Ef þú nærð svo í litinn á fléttunni getur þú boðið (e. bet). Ef þú nærð litnum ekki á fléttunni getur þú skoðað (tékkað), til þess að sjá spilið á fljótinu (e. river) „ókeypis“.

Free Roll (Lausagír, rúlla frítt)

Einn spilari á möguleika á að vinna allan pottinn þegar hann er jafn einhverjum öðrum spilara. Segjum til dæmis að þú sér með A-Q í laufi og mótspilarinn er með A-Q í hjarta. Floppið er Q-5-T þar á meðal tvö lauf. Þú ert núna jafn andstæðingnum, en ert að rúlla frítt af því að þú getur unnið allan pottinn en andstæðingurinn getur það ekki. Ef það kemur ekkert lauf skiptið þið pottinum jafnt; ef það kemur lauf vinnur þú allan pottinn.

Gullpottur

Sérstakur bónus sem spilari sem tapar hönd fær greiddan ef hann tapaði með yfirburða sterka hönd. Í Hold'em á þetta yfirleitt við þegar sá sem tapaði var með ása fulla eða betra en tapaði samt. Í sumum stóru spilaklúbbunum í Kalíforníu t.d. verða þessir lukkupottar oft yfir $50.000. Þessir gullpottar myndast eins og aðrir pottar, þar sem hluti peninganna á borðinu rennur í þá sem hluti af tekjunni (e. rake).

Gutshot Straight (Innskotsröð)

Röð sem er fyllt upp „innan frá“. Ef þú ert með 9-8, floppið lendir 7-5-2 og fléttan er 6, þá ertu búinn að fylla röðina innan frá.

Heads Up

Pottur sem einungis tveir spilarar spila um. Dæmi: Dæmi: „Þetta var orðið heads up á fléttunni.“

Hitta (e. Hit)

Eins og „ég hitti floppið/floppið hitti á mig“ sem þýðir að í floppinu sem kom voru spil sem hjálpuðu höndinni þinni. Ef þú ert með AK og floppið kemur með K-7-2, þá hitti það.

Holuspil

Spil sem eru gefin á grúfu til spilara - almennt notað til að lýsa fyrstu tveim spilum spilara í Hold'em og fyrstu fjórum spilum spilarans í Omaha.

House (Húsið)

Staðurinn sem hýsir/heldur leikinn. Dæmi: „Þessir $2 sem þú setur á hnappinn renna til hússins.“

Hækka

Að auka við upphæð gildandi boðs.

Implied Odds (Ætlaðar líkur)

Pottlíkur sem eru ekki fyrir hendi eins og er, en þú gætir tekið þær með í útreikninginn vegna þeirra peninga sem þú getur búist við að vinna, ef þú hittir höndina. Tökum sem dæmi, þú gætir kallað ef þú ert að fiska eftir lit á fléttunni (e. turn flush draw), þó að þú sért ekki að ná alveg í 4:1 líkur (líkurnar á að þú hittir á litinn), af því að þú ert viss um að þú náir að vinna boð frá andstæðingnum á fljótinu (e. river) ef þú hittir á litinn.

Inside Straight Draw (Dregur í innanröð)

Ert að bíða eftir einu ákveðnu spili til að ná að klára röðina þína. Til dæmis er spilari með 9-5 á hendi og borðið er 2-7-6 og hann getur þá náð í röð með því að hitta einhverja áttu. Þetta er líka kallað að vera með innfylliröð eða að fiska í innanröð.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Jafntefli

Að spila hönd sem er ekki góð eins og er en gæti orðið það ef réttu spilin koma í borð. Dæmi: „Ég er ekki kominn með þetta enn - er að draga“. Líka notað sem nafnorð. Dæmi: „Ég verð að kalla því ég á gott dorg.“

Kicker (Sparkarinn, næsta spil, kikker, viðspyrnan)

Óparað spil sem er notað til að ákvarða handaröð í höndum sem eru næstum jafnar. Segjum til dæmis að þú sér með A-K og mótspilarinn er með A-Q. Í floppinu kom svo einn ás og þið þá báðir komnir með ásapar en þú ert með kóng sem næsta spil við. Kikkerinn getur verið gríðarmikilvægur í Hold'em

Live Blind (Blindfé í leik)

Skylduboð (e. forced bet) sem er sett út af einum eða fleiri spilurum áður en spil eru gefin. „Í leik“ hlutinn á við um það að þessir spilarar eiga enn möguleika á að hækka þegar röðin kemur að þeim að segja.

Maniac (Brjálæðingur, klikkhaus)

Spilari sem spilar gríðarlega sækið (e. hyper aggressive) og hækkar, býður og blekkir mikið. Þeir sem eru snarbrjálaðir spilarar eru almennt ekki góðir spilarar, heldur eru þeir bara í fjárhættuspili eða í lottói við borðið. Hins vegar getur spilari sem stundum spilar eins og hann sé í brjálæðisgírnum ruglað mótspilarana hressilega og hann er oft erfiður mótherji.

Muck (Hauga, hrúga, rusla)

Ruslahrúgan fyrir framan gjafarann þar sem pökkuðum og brenndum spilum er hent. Dæmi: „Höndin hans lenti í haugnum svo gjafarinn dæmdi að hann hefði pakkað, þó hann hafi beðið um að fá spilin sín aftur.“ Líka notað sem sagnorð. Dæmi: „Hann átti engin útspil (e. outs) eftir svo hann haugaði höndinni.“

Nuts (Rærnar, hneturnar, geirneglt)

Besta mögulega höndin miðað við það sem er í borði. Ef borðið er K-J-T-4-2 með þrjú hjörtu, þá er A-X í hjarta sterkast (þar sem X táknar hvaða spil sem er). Maður heyrir líka stundum talað um að það eigi við um bestu mögulegu höndina af einhverri ákveðinni gerð, þó að það séu tæknilega ekki rærnar í heildina. Í dæminu hér að ofan gæti t.d. einhver sem er með A-Q sagt að hann væri með „hneturöðina“ (e. nut straight).

Offsuit (Ósamstæður litur, tvílitt, ekki í sort, köflótt)

Upphafshönd í Hold'em þar sem spilin eru ekki af sömu sort.

One-Gap (Eitt bil, skarð)

Upphafshönd í Hold'em þar sem tvö sæti eru á milli í röð þeirra (s.s autt bil á milli). Dæmi: J-9 eða 6-4.

Open-Ended Straight Draw (Dregið í röð sem er opin í báða enda)

Ert að bíða eftir einu tveggja spila sem ná að klára að mynda röðina þína. Til dæmis ef spilari er með 9-8 og borðið er 2-7-6, þá getur hann myndað röð með annað hvort tíu (6-7-8-9-T) eða með fimmu (5-6-7-8-9). Þetta er líka kallað að draga í upp-og-niður röðina, eða í Gullfoss & Geysi.

Out (Möguleikar, útleiðir)

Spil sem tryggir þér sterkustu höndina. Yfirleitt notað í fleirtölu. Dæmi: „Hvaða spaði sem er tryggir mér litinn, svo ég á níu útleiðir“.

Outrun (Hlaupa hraðar, framúrhlaup)

Að vinna. Dæmi: „Sigga hljóp fram úr settinu mínu þegar spilið sem kláraði litinn hennar lenti á fljótinu.“

Overcall (Kalla of sterkt, ofkalla)

Að jafna boð eftir að einn eða fleiri aðrir spilarar hafa þegar gert það sama.

Overcard (Yfirspil)

Spil sem er hærra en nokkuð annað spil í borðinu. Til dæmis ef þú ert með A-Q og floppið kemur J-7-3, þá ertu ekki með par en þú ert með tvö yfirspil.

Overpair (Yfirpar)

Par á hendi sem er hærra en nokkuð spil úr floppinu. Ef þú ert með Q-Q og floppið lendir J-8-3, þá ert þú með yfirpar.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Pay Off (Að borga sig, fá borgað, borga)

Að sjá boð þegar sá sem lagði það út gefur í skyn að hann sé með hönd sem þú getur ekki unnið, en potturinn er orðinn það stór að það réttlætir kallið hvort sem þú ert með hann eða ekki. Dæmi: „Hann spilaði nákvæmlega eins og hann hefði hitt á litinn, en ég var með hæsta settið svo ég borgaði honum.“

Play the Board (Spila á borðið)

Að sýna hönd á hólminum (e. showdown) í Hold‘em þegar spilin sem þú ert með eru ekki betri en það sem liggur í borðinu. Ef þú ert t.d. með 2-2 en borðið er 4-4-9-9-A (enginn mögulegur litur í boði), neyðist þú til að „spila með borðið“: besta mögulega höndin sem þú ert með sem notar ekkert af spilunum þínum. Athugaðu að ef þú ert að spila á borðið þá er það besta sem þú getur náð, að deila pottinum með öllum sem eru eftir í höndinni.

Pocket (Vasi)

Spilin þín sem enginn annar er með og enginn getur séð. Eins og „Hann var með vasasexur“, eða „ég var með ás-kóng í vasanum“. Sjá einnig undir „holuspil“.

Pocket Pair (Vasapar)

Upphafshönd í Hold‘em þar sem þú ert með tvö spil í sömu röðun/með sama númeri, sem gefur þér par. Dæmi: „Ég var sjö sinnum með stórt par í vasanum fyrsta klukkutímann. Er hægt að hafa það eitthvað betra?“

Post (Pósta, leggja út)

Að leggja inn blindféð, almennt skilyrði þegar þú sest fyrst niður við borð að spila. Þú gætir einnig þurft að pósta blindfé ef þú skiptir um sæti við borð ef þú færist lengra frá blindum. Dæmi: spilari stendur upp úr sæti við borðið og sest annars staðar við það og færir sig þannig lengra frá blindum. Hann er þá skyldugur til þess að leggja út aukalegt blindfé til þess að fá spil. Sjá einnig undir „auka blindfé/extra blind“.

Pot Odds (Pottlíkur)

Fjárhæðin í pottinum samanborin við þá upphæð sem þú þarft að setja út í hann til þess að fá að spila höndina áfram. Gefum okkur sem dæmi að það séu $60 í pottinum. Einhver setur út $6, svo hann er þá orðinn $66. Það kostar þig $6 að sjá, svo pottlíkurnar þínar eru 11:1. Ef svo líkurnar þínar á að vera með bestu höndina eru að minnsta kosti 1 á móti 12, þá borgar sig að sjá. Pottlíkur eiga einnig við um þegar þú ert að draga/dorga (bíða eftir spili). Til dæmis segjum að þú sért að draga eftir að ná í sterkasta litinn (e. nut flush) og það á eitt spil eftir að koma. Í þínu tilviki eru um 4:1 á móti því að þú náir litnum. Ef það kostar þig $8 að jafna boðið verða að vera að minnsta kosti $32 í pottinum fyrir (og síðasta boðið meðtalið) til þess að það réttlæti það að kalla.

Pott-takmark

Útgáfa af póker þar sem spilari má bjóða (e. bet) upp að þeirri upphæð sem er þegar fyrir í pottinum þegar hann á að gera. Eins og með leik án takmarks (e. no limit) er þetta talsvert öðruvísi leikur en póker með takmörkum (e. limit).

Protect (Vernda, passa, skýla)

(1) Að hafa höndina þína eða spilapening ofan á spilunum þínum. Það hlífir þeim frá því að verða ógilt af spilum sem er verið að henda, eða að þau séu óvart hauguð (e. mucked) af gjafaranum. (2) Að eyða meiri pening í pott þar sem þú átt þegar blindfé, svo að þú hafir ekki verið að „sóa því“. Dæmi: „Hann passar alltaf blindféð sitt, alveg sama hvað hann er með léleg spil.“

Ragged (Slitið, tætingslegt, reytingur)

Flopp (eða borð) sem virðist ekki getað hjálpað neinum að bæta höndina sína. Flopp sem kemur í borð og er J-6-2 væri reytingur.

Rake (Tekja)

Lítil fjárupphæð sem gjafarinn tekur úr öllum pottum. Héðan hefur spilasalurinn tekjurnar sínar.

Regnbogi

Flopp sem inniheldur þrjár ólíkar sortir (e. suits), en þannig er ekki einu sinni hægt að ná í lit með fléttuspilinu (e. turn). Þetta getur líka átt við borð með fimm spilum þar sem ekki eru fleiri en tvö spil af hverri sort og því er litur ekki í boði hjá neinum.

Represent (Gefa í skyn, sýnast)

Að spila eins og þú sért með tiltekna hönd. Segjum t.d. að ef þú hækkaðir fyrir floppið og hækkaðir svo aftur eftir að það kom með ás hæst á floppinu, þá værir þú það gefa í skyn að þú værir a.m.k. með ás og góðan sparkara með.

Ring Game (Hringleikur)

Venjulegur pókerleikur, annað en t.d. mót. Einnig kallað „live“ leikur þar sem er spilað um venjulega peninga en ekki um mótaspilapeninga.

River (Fljótið)

Fimmta og síðasta sameignarspilið sem er sett í borð. Það snýr upp og kemur eitt og síðast. Einnig kallað „fimmta stræti.“ Myndlíkingar sem innihalda fljót, ár eða vatnsföll eru einnig margar þeirra skemmtilegustu og fjölbreyttustu sem fylgja pókernum, eins og t.d. „hann drukknaði í ánni“.

Rock (Grjót, klettur, hnullungur)

Spilari sem spilar mjög þröngt handabil og vinnur ekki mjög frumlega með það. Hann hækkar bara með bestu hendurnar. Það er frekar auðvelt að sjá í gegnum alvöru hnullung: ef hann hækkar á þig í lokin geturðu pakkað niður eiginlega öllu nema þú sért með rærnar (e. nuts).

Runner (Hlauparar)

Yfirleitt notað sem „runner-runner“ til að lýsa hönd sem að hefur náð að hlaupa saman með því að hitta á réttu spilin bæði á fléttunni og fljótinu. Dæmi: „Hann náði runner-runner lit (hljóp í lit) og vann þannig þrennuna mína.“ Sjá einnig undir „backdoor“.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Scare Card (Hættuspil, óttaspil)

Spil sem gæti hugsanlega breytt bestu höndinni í algjört rusl. Ef þú ert með T-8 og floppið kemur Q-J-9 getur þú verið nokkuð viss um að vera með bestu höndina. Hins vegar ef spilið á fléttunni er T þá væri það sannkallað hættuspil því þú gætir verið nokkuð viss um að einhver væri kominn með sterkari hönd en þú.

Second Pair (Annað par)

Par sem notast við næsthæsta spil í floppinu. Ef þú ert með A-T og floppið kemur K-T-6, þá floppaðir þú öðru parinu. Sjá einnig undir „topp par“.

Sell (Selja)

Eins og í að „selja hönd“. Í leik með dreifðu takmarki (e. spread limit) þýðir þetta að þú bjóðir minna en hámarkið þegar þú ert með mjög góða hönd og vonast til að mótspilararnir jafni, þar sem þeir hefðu mögulega ekki jafnað hámarksboð.

Semi-bluff (Hálfblöff, smáblekkja)

Öflugt hugtak sem var fyrst rætt og skoðað almennilega af David Sklansky. Það er hækkun eða boð sem þú vonast til að verði ekki jafnað, en þú átt samt einhverjar útleiðir (e. outs) ef einhver gerir það. Það gæti verið réttlætanlegt að nota hálfblekkinguna ef það að bjóða í verðígildi pottsins (e. value bet) eitt og sér nægir ekki, en samtals með þessu gæti þetta verið rétt. Dæmi: þú ert með K-Q og floppið kemur T-5-J. Ef þú býður út í þessari stöðu þá værir þú að hálfblekkja. Á þessari stundu ertu líklegast ekki með bestu höndina svo þú vilt helst að mótspilararnir pakki sem fyrst. Samt sem áður, ef einhver kallar, gætir þú enn bætt þig og endað með bestu höndina.

Set (Sett)

Þrjú eins, þegar þú ert með tvö eins á hendi og svo kemur þriðja þannig í borðið.

Short Stack (Lágstaflað, stuttur)

Upphæð í spilapeningum sem er ekki há miðað við það sem hinir spilararnir við borðið eru með. Ef þú ert með $10 fyrir framan þig og allir hinir við borðið eru með meira en $100 ertu mjög lágt staflaður.

Showdown (Hólmurinn)

Sá staður, það augnablik í spilinu þar sem að allir spilararnir sem enn eru með í höndinni verða að sýna spilin til þess að skera úr um hver er með bestu höndina - þ.e.a.s. eftir að fjórðu boðlotunni er lokið. En það er auðvitað ekki farið á hólminn ef síðasta boðið eða hækkunin er ekki jöfnuð.

Side Pot (Síðupottur, hliðarpottur)

Pottur sem verður til vegna spilara sem á ekki nægilega marga spilapeninga til að gera tilkall í hann. Dæmi: Atli býður $6, Beta jafnar þessa $6 og Kobbi kallar líka, en hann á bara $2 eftir. Þá er búinn til síðupottur með $8, sem annað hvort Atli eða Beta geta unnið, en ekki Kobbi. Kobbi getur hinsvegar enn unnið alla peningana í upphaflega pottinum, eða „miðjupottinum“.

Slow Play (Hægspila, teyma)

Að spila sterka hönd mjög veikt svo fleiri spilarar haldi áfram að leggja í pottinn.

Small blind (Litli blindur)

Lægra blindféð af tveimur blindum boðum sem almennt eru notuð í Hold'em-leik. Almennt er litli blindur einn þriðji til tveir þriðju af boðupphæðinni í fyrstu boðlotunni. Sjá einnig undir „Big blind“ og „blindfé“.

Smooth Call (Mjúkt kall, léttkall)

Að kalla, jafna. Léttkall bendir oft til þess að það sé verið að hægspila sterka hönd. Dæmi: „Ég floppaði hæsta litnum en ég bara léttkallaði þegar gaur á undan mér bauð út - Ég vildi ekki vera hræða neinn úr pottinum.“

Split Pot (splittpottur, skiptur pottur, deilipottur)

Pottur sem tveir eða fleiri spilarar deila af því að þeir hafa haft jafn sterka hönd.

Split Two Pair (Splitta tveimur pörum, tvö skilin pör)

Hönd með tveimur pörum þar sem mótspilið fyrir hvort spilið sem þú ert með á hendi er í borðinu líka. Dæmi: þú ert með T-9 og floppið er T-9-5 þá ertu með tvö skilin pör. Þetta er öðruvísi en ef þú værir t.d. með tvö pör þar sem annað parið er í borði. Dæmi: þú ert með T-9 og floppið er 9-5-5.

Spread-limit (Dreift takmark)

Uppbygging boða (e. betting structure) þar sem spilari má bjóða hvaða upphæð sem er innan ákveðins bils/dreifisviðs í hverri boðlotu fyrir sig. Venjulegur leikur væri t.d. með dreifitakmarkið $2-$6 en þar má spilari bjóða allt frá $2 og upp í $6 í hverri boðlotu (e. betting round).

Straddle (Klofríða, klofa, söðla)

Aukalegt blindfé, almennt sett út af spilaranum vinstra megin við stóra-blind að hans eigin frumkvæði og er það tvöföld upphæð stóra-blinds. Í raun er þetta öflug leið til að hækka því það neyðir alla hina spilarana, sem ætla að vera með, til að spila út tvöföldu boði. Einnig á sá sem klofaði að segja síðastur áður en floppið kemur og hann má endurhækka (e. re-raise).

String Bet (línuboð, strengiboð)

Boð (er samt eiginlega alltaf hækkun) þar sem spilari sem er að hækka setur ekki alla spilapeningana sem þarf í pottinn í einni hreyfingu, eða í einni sögn. Ef hann hefur ekki sagt upphátt að hann sé að hækka má biðja hann um að taka umframpeninginn til baka og hann er þá bara að jafna. Þetta er til að fyrirbyggja að það sé verið að spila óheiðarlega með því að setja fyrst bara nóg til að kalla, til að sjá hvaða áhrif það hefur á hinn og svo hugsanlega að bæta í hækkunina.

Structured (Uppbygging, byggður)

Átti við um mjög ákveðna uppbygginu boða í pókerleikjum. Venjulega voru byggðir Hold'em-leikir þannig að það voru takmörk á boð og hækkanir fyrir flopp og á floppinu og svo tvöföld sú upphæð á fléttunni og fljótinu. Dæmi: byggður Hold'em-leikur með $2-$4: boð og hækkanir eru þá $2 fyrir flopp og á floppinu; $4 fyrir boð og hækkanir á fléttuspilinu og fljótinu.

Suited (Í sort)

Upphafshönd í Hold'em þar sem tvö spil eru af sömu sort. Dæmi: „Ég bara varð að spila með J-3 - þetta var í sort.“

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Sætisröð

Númeragildið sem er á spili (annað en sort þess). Dæmi: „gosi“, „sjöa“.

Table Stakes (Borðbitar, borðhúf)

Regla í póker sem þýðir að spilari má ekki fara í veskið að sækja meiri peninga á meðan hönd stendur yfir. Hann má bara leggja út í pottinn þann pening sem hann hefur fyrir framan sig hverju sinni, áður en hönd hefst. Ef hann klárar peninginn í miðju kafi er útbúinn síðupottur (e. side pot) með þeim peningum sem hann á ekki tilkall til. Allur póker í spilasölum/kasínóum er spilaður með borðbita. Þessi regla kveður stundum líka á um að spilari megi ekki taka peninga af borðinu á meðan leikur stendur yfir. Þó þessi regla sé ekki alls staðar kölluð „borðbitar“ er henni framfylgt við næstum alla opinbera pókerleiki.

Tell (Sögn, gefa uppi)

Vísbending eða fas sem spilari gefur ósjálfrátt uppi varðandi styrk handarinnar sem hann er með og þá hvað hann gerir næst. Gæti upphaflega komið úr orðinu „telegraph“ en er líklegast bara beint úr því að hann „segir“ þér hvað hann ætlar að gera áður en hann gerir það.

Tilt (Halla, skakkur, sjóðandi)

Að spila villt eða kæruleysislega. Sagt er um spilara að hann sé „frekar hallur“ ef hann er ekki að spila eins vel og hann getur, t.d. með því að spila of margar hendur, hækka með slakar hendur o.þ.h.

Toke (Sýni, vottur, eining)

Smá peningaupphæð (yfirleitt $0,50 eða $1) sem gjafarinn fær frá þeim sem var að vinna pott. Mjög oft þá er þetta meirihluti tekna gjafarans.

Top Pair (Topp par)

Par sem notast við hæsta spil í floppinu. Ef þú ert með A-Q og floppið kemur svo Q-T-6 hefur þú floppað topp parinu. Sjá einnig undir „second pair“.

Top Set (Topp sett)

Hæsta mögulega þrennan. Dæmi: þú ert með T-T og floppið kemur T-8-9. Þú hefur þá floppað topp settinu.

Top Two (Efstu tvö, tvö bestu)

Tvö pör þar sem bæði holuspilin þín mynda pör með tveimur hæstu spilunum í borði.

Top and Bottom (Toppur og botn, efsta og neðsta)

Tvö pör þar sem bæði holuspilin þín mynda pör með hæstu og lægstu spilunum í borði.

Trips (Þrenna)

Þrjú eins.

Turn (Flétta, turninn)

Fjórða sameignarspilið. Sett út upp í loft og eitt og sér. Einnig kallað „fjórða stræti.“

Tími

(1) Beiðni frá spilara um að stöðva leik á meðan hann ákveður hvað hann ætlar að gera. Yfirleitt bara, „tíma, takk!“ Ef spilari biður ekki um tíma og það eiga margir eftir að gera á eftir honum, þá má gjafari úrskurða að hann hafi pakkað. (2) Fjárhæð sem er safnað saman, annað hvort af hnappnum eða á hálftíma fresti af spilasalnum. Þetta er önnur leið fyrir spilasalinn að þéna pening (sjá „rake/tekja“).

Under the Gun (Við hlaupið/byssuna)

Staða spilarans sem á fyrstur að gera í boðlotu. Til dæmis ef þú situr í sætinu vinstra megin við stóra blind situr þú við hlaupið áður en floppið kemur.

Underdog (Ólíklegur, veikari, smáhundur)

Einhver, eða einhver hönd, sem er ólíklegri tölfræðilega séð til þess að vinna pott. Til dæmis, ef þú floppar fjórum spilum í litinn þinn, þá eru næstum 2:1 minni líkur á að þú náir í röðina þína áður en höndin er búin (þ.e. að þú nærð litahönd (e. flush) í um eitt skipti af þremur). Sjá einnig undir „dog“.

Value (Virði, kjör)

Eins og í „góð kjör í boðinu“ (e. bet for value). Þetta þýðir að þú vilt eiginlega að andstæðingurinn jafni boðið þitt (öfugt við það ef þú værir að blekkja t.d.). Yfirleitt þá er það vegna þess að þú ert með bestu höndina. Einnig gæti það líka verið að þú sért að draga í hönd og ef nógu margir jafna, er væntingagildið jákvætt.

Variance (Dreifni)

Mæliákvarði á upp- og niðursveiflurnar á höfuðstólnum þínum. Dreifni er ekki endilega mælikvarði á hversu vel þú spilar. Hins vegar er sterkt samhengi á milli hárrar dreifni og mikillar sveiflu á höfuðstólnum.

Orðalistinn er hér í boði „Winning Low Limit Hold'em“ eftir Lee Jones

Verð

Pottlíkur sem þú færð þegar þú dregur eða kallar. Dæmi: „Potturinn var á þannig verði að það borgaði sig fyrir mig að hanga inni og reyna draga í inn í röðina (e. gutshot straight draw).“

Án-takmarks

Afbrigði af póker þar sem spilari má leggja hvaða hluta af spilapeningunum sínum sem er undir (og upp að því marki sem hann er með í staflanum fyrir framan sig), hvenær sem hann á að gera. Það er allt öðruvísi leikur en að spila póker með takmörkum.